|
:: Wednesday, August 18, 2004 ::
Það er nú meira hvað maður er latur að skrifa. Ég er orðin svo gömul að maður má bara ekki vera að því að standa í þessu skriftarstússi. Ég er núna orðin eins og hálfs árs gömul og geri núna næstum það sem mig langar til. Ég hleyp út um allt og reyni eins og ég get á þolrifin í mömmu og pabba.
Í dag fóru amma, Drífa frænka og Jack maðurinn hennar til Reykjavíkur eftir að vera hjá okkur í 4 daga. Amma passaði mig tvisvar og er komin í hörku hlaupaform eftir að hafa þurft að elta mig út um allar trissur. Það var gaman. Jack var líka rosalega fínn. Ég var eiginlega alltaf hjá honum. Drífa vildi líka allt fyrir mig gera en einhvern veginn var aldrei tími til að vera hjá einhverjum öðrum en Jack. Amma og Drífa eru fínar en Jack var bara besti vinur minn á meðan hann var hérna. Annars er það helst að frétta af mér að ég er að byrja í skóla þann 13. september. Skólinn minn er Frábær. Þegar ég byrja í Frábæ þá fer nú að líða að því að ég geti tekið samræmd próf. Ég er mikið að spekúlera í að taka eitt samræmt próf í vor og restina eftir ár. Maður er nú ekkert að fara í skóla til að drolla eitthvað. Ég er alveg búin að setja þetta niður fyrir mig. Fyrst læri ég að lesa, svo að reikna og svo get ég tekið prófin.
Ég ætla líka að vera dugleg í tölvunni í vetur. Ég hlýt að fá aðgang að tölvu í skólanum og kemst þar á internetið. Ég og pabbi getum þá sett myndir á heimasíðuna.
Reyni að láta vita af mér reglulega.
Kveðja Tinna Huld.
:: Unknown 09:07 [+] ::
...
|