|
:: Tuesday, March 09, 2004 ::
Hæ,
Ég er að reyna að vera duglegri að skrifa. Núna hef ég góðan frið því að pabbi (sem er alltaf að reyna að skipta sér af því sem ég skrifa) er í bænum. Þær fréttir eru helstar af mér þessa dagana að ég er byrjuð að ganga of mikið. Ég arka fram og til baka en oftast þó til að elta mömmu til að láta halda á mér. Hún er dáldið dugleg við það og er þess vegna miklu skemmtilegri heldur en pabbi. Ég toga bara í buxurnar hennar og læt aðeins heyra í mér og þá er mér bjargað af köldu gólfinu.
Ég og Týra eigum stundum í stríði. Ég toga í hana og pota í augun á henni og þá fer hún og ég elti. Ég þarf stundum að elta hana talsvert enda fer hún langt í burtu á hverjum flótta og svo aftur til baka þegar ég kem til hennar. Stundum vinn ég því ég er sko þrjósk. Ég vil líka benda á að ég á Týru og þá má ég eiginlega gera hvað sem ég vil við hana. Stundum er ég líka góð við hana og gef henni matinn minn. Þá situr hún kyrr fyrir neðan stólinn minn og borðar allt úr hendinni minni sem ég rétti að henni. Þá erum við vinir.
Ég er líka farin að gefa fimm (give me five), klappa, tromma, vera stór og benda á ýmislegt.
Ég er sem sagt alveg að verða fullorðin kona. Af hverju. Jú. Ég kann að slá stráka, ég kann að tala en það skilur mig enginn, ég get bent á þá hluti sem ég vil og fæ þá og að lokum þá kann ég að halda karlmönnum (pabba) ánægðum með því að klappa og tromma fyrir hann þannig að ég haldi áfram að ráða á heimilinu.
Hafið það gott þangað til næst og jafnvel lengur... Munið gestabókina sem er næstum því tóm.... hún er eins og áður hér vinstra megin klár fyrir ykkur.
:: Unknown 00:50 [+] ::
...
|