|
:: Wednesday, March 03, 2004 ::
Sælt veri fólkið.
Ekki hefur nú gengið sem skyldi að tjá sig hér á vefnum upp á síðkastið. Pabbi var nefnilega heima í fæðingarorlofi og hann gat aldrei opnað tölvuna fyrir mig því hann þurfti að sofa bæði fyrir og eftir hádegi og svo lagði hann sig á milli. Ég var bara á gólfinu að leika mér og bíða eftir að mamma sem er byrjuð að vinna komi heim til að gefa mér að borða. Ég reyni nú að leggja mig eins og pabbi til að hafa eitthvað að gera. Það lærum við börnin sem fyrir okkur er haft. Pabbi var heima allan janúar og febrúar en mamma byrjaði að vinna daginn eftir afmælið mitt og vann allan febrúar. Hún er núna komin í smá frí og verður heima í tvær vikur en þá byrja ég hjá dagmömmu, henni Michelle. Hún er kennari eins og pabbi og vinna þau saman. Hún á strákinn hann Þorstein sem ég er stundum að leika mér við og nú leikum við okkur saman allan daginn þegar ég byrja hjá þeim. Það verður rosa stuð. Mér finnst gaman að berja hann í hausinn og toga í hann og klípa. Hann er voða góður við mig enda er ég líka eldri. Hann á ekki eins árs afmæli fyrr en í mars en þá verð ég 1,2 ára. Ég er byrjuð að ganga smávegis. Ekkert voðalega langt í einu því að þá hætta allir að halda á mér. Ég geng bara svona 5 til 10 skref í einu og þykist þá vera orðin þreytt. Maður er nú ekkert orðin svo stór enn að maður þurfi að ganga allan daginn. Ef ég fer líka að ganga of mikið finnst fólki það ekkert spes þó maður gangi. Ég ætla að reyna að ganga sem minnst á næstunni þannig að mér verði alltaf hrósað fyrir að ganga. Sjáið bara, þegar ég byrjaði að sitja uppi þá voru mamma og pabbi voða ánægð og sögðu mér alltaf hvað ég væri dugleg. Í dag sit ég og sit en enginn segir hvað ég er dugleg. Haldiði að maður læri ekki á svona nokkuð. Ég ætla sko ekki að fara að venja fólk af því að hrósa mér.
Ég fékk heimsókn um daginn þegar Soffía frænka úr Þistilfirði, Margrét dóttir hennar og Jónas maðurinn hennar komu í heimsókn með dóttir vinkonu hennar Svölu, Karitas. Ég var orðin svo von því að sofa vel og lengi eins og pabbi að ég svaf næstum því af mér heimsóknina en sem betur fer vaknaði ég tímanlega til að hitta þau og láta þau dást að mér. Það var gaman að láta dásama sig svolítið. Ég fer stundum í skólann með pabba, hann er alltaf að monta sig af mér og gerir sér upp ferðir í skólann til að sýna mig, og þar eru alltaf allir í skýjunum yfir mér og geta ekki beðið eftir að ég komi í 6 ára bekk enda er ég svo dugleg og stillt og reyni að brosa og sýna allar 6 tennurnar sem ég er komin með.
Stundum verð ég reið. Sérstaklega ef ég fæ ekki það sem ég bið um. Mér finnst t.d. mjög gott að borða morgunblaðið en fæ mjög sjaldan að smakka það. Þá verð ég reið. Reiðust varð ég þó þegar ég ætlaði að skríða út með pabba sem aldrei þessu vant var vakandi en hann setti bara ristina undir magann minn og vippaði mér inn í stofu aftur. Þá varð ég sko reið. Annars er bara svo gaman að vera til að það tekur því ekki að rífast. Það er svo margt að sjá og skoða og fikta og spjalla og allt að ég nenni ekki að vera í fýlu.
Jæja annars hefur verið rólegt hjá mér. Fáir komið í heimsókn og sérstaklega fólkið hans pabba. Jónas hennar Soffíu kemur oftast en afi og amma á Þórshöfn eru líka dugleg að koma og skoða mig. Pabbi á aðallega ættingja í Reykjavík og þeim finnst svo langt að koma austur. Það finnst mér ekki gaman, ég vil fá fólk í heimsókn til að skoða mig.
Bæ, bæ.
:: Unknown 05:01 [+] ::
...
|