:: Tinna Huld ::

Dagb?k Tinnu Huldar
:: welcome to Tinna Huld :: bloghome | contact ::
[::..archive..::]
[::..recommended..::]
:: gestabókin [>]
:: mogginn [>]
:: plastic [>]
:: Bibbi [>]

:: Sunday, January 04, 2004 ::

Jæja. Sælir nú lesendur og aðrar endur.

Það var nú aldeilis kominn tími á að ég færi að skrifa aftur. Þetta ár sem liðið er líður mér snemma úr minni. Man varla neitt frá því í fyrra. En jólin voru nú samt fín. Ég var í mat hjá mömmu og pabba á aðfangadag og fékk svo ægilega flottan pappír í jólagjöf og meira að segja band utan um sem smakkaðist eins og þurr bréfaþurrka. Ég fékk alls konar pappír í jólagjöf. Rauðan, bleikan og með myndum. Ég held líka að það hafi eitthvað verið inni í pappírnum en man ekki alveg hvað það var enda sjálfsagt eitthvað til að þurfa ekki að gefa mér eins mikinn pappír. Jæja við borðuðum svo eitthvað sem var ekki nálægt því eins spennandi og pappírinn. Ég sofnaði svo fljótlega eftir matinn. Þessi jól voru líka fín því að ég gaf bæði pabba og mömmu ægilega fína hluti sem þau voru ánægð með og svo gaf ég Týru líka smá leikfang þannig að hún væri ekki alltaf að leika með mitt dót. Hún er reyndar rosalega góð við mig og leyfir mér að toga í eyrun á sér og skottið án þess að blikna. Það eina sem fer í taugarnar á henni er þegar einhver kallar á mig því að þá vill hún líka koma og er oftast á undan mér og er skömmuð. Það finnst henni ekki gaman. Hún er líka oft að sleikja mig í framan og það finnst okkur báðum gaman. Hún er sérstaklega dugleg að sleikja mig í framan þegar ég er nýbúin að borða og sumt af matnum er enn framan í mér. Ég gef henni nú líka bita þegar ég er að borða. Þeir hrökkva þá af allsnægtarborði mínu og upp í hana. Hún borðar eiginlega allt sem ég borða. Hún er meira að segja byrjuð að borða gúrkur og banana.

Á milli jóla og nýárs varð ég 11 mánaða og það var eins og fólk fattaði ekki fyrr en nokkrum dögum seinna að ég hefði átt afmæli því að það fengu allir ægilegan móral og ákváðu að gera afmælið mitt veglegt með rosalegum hávaða. Ég svaf það reyndar allt af mér enda var ég búin að fá fínan mat og orðin södd og þreytt. Þetta voru fín áramót.

Nú er sem sagt komið nýtt ár og ég komin á mitt annað ár þó svo að ég sé enn á því fyrsta hvernig svo sem það er hægt
en ég get það eins og svo margt annað.

Ég er reyndar ekki enn byrjuð að ganga sjálf á milli staða en fer ansi langt með því að haldið er í axlirnar á mér. Ég er með þyngdarpunktinn svolítið framarlega svona eins og pabbi og dett því oft á rassinn þegar ég reyni að halda jafnvægi. Ég er líka bara með tvær tennur enn og vona að hinar fari að koma. Það er stundum erfitt að borða þegar bara tvær tennur í neðri góm hamast við að tyggja. Ég held að það fari að koma tennur uppi en ég er reyndar búin að halda það svolítið lengur. En þær verða bara að fara að koma því að pabbi er alltaf að berja á tanngarðinum til að athuga hvort að ekki heyrist tannhljóð og nú er mamma að fara að vinna bráðum og pabbi verður einn heima með mig og ef tennurnar verða ekki komnar á hann eftir að berja þær upp úr enninu á mér. Það líst mér ekki á.

Ég ætla núna að reyna að vera dugleg (eins og ég er nú búin að ætla dáldið lengi) við að skrifa hér inn. Það hefur einhvern veginn dottið upp fyrir. Vonandi verður breyting þar á og endilega skrifið í gestabókina og kvartið ef það hefur ekki verið skrifað lengi.

Kveðjur úr Austrinu.

Tinna Huld
:: Unknown 06:00 [+] ::
...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?