:: Tinna Huld ::

Dagb?k Tinnu Huldar
:: welcome to Tinna Huld :: bloghome | contact ::
[::..archive..::]
[::..recommended..::]
:: gestabókin [>]
:: mogginn [>]
:: plastic [>]
:: Bibbi [>]

:: Friday, October 10, 2003 ::

Heimur versnandi fer. Maður segir nú ekki annað og hvað annað getur maður eiginlega sagt. Sjálfsmorðsárásir úti í heimi, hvalveiðar við Ísland, Osama bin Laden enn ófundinn, Tortímandinn orðinn pólítíkus, Kína að skjóta mannaðri flaug út í geiminn og ég hætt að fá að drekka á nóttinni. Ef við leggjum nú þessi fyrstu smámál aðeins til hliðar og lítum á þau sjálfsögðu mannréttindi að fá mjólk á nóttinni þá er nú kominn tími til að mannkynið staldri aðeins við og líti upp frá eigin hagsmunum og beini athyglinni að mér. Ég hef haft þann góða sið að vakna reglulega á nóttinni á svona 2ja tíma til 3ja tíma fresti og vekja mömmu og fá mjólk. Allt í einu er mamma bara ekki þar sem mamma á að vera heldur einhver með hár í staðinn fyrir mjólk. Ég læt nú ekki bjóða mér hvað sem er. Hver leyfir það að mamma og pabbi skipta um stað í rúminu. Ég og mamma eigum að vera öðrum megin og pabbi hinum megin. Nú fæ ég ekki lengur að fara upp úr rúminu heldur er snuðinu troðið upp í mig ef ég svo mikið sem æmta smávegis. Hvernig stendur á því að mannréttindi eru fótum troðin á mínu heimili og ekkert er gert til að leiðrétta þetta. Ég læt núna sem ég sofi alla nóttina því að ég vil að þau foreldrar mínir fái ægilegt samviskubit. En hvað. Örlar á samviskubiti? nei!!! Þau eru ofsalega ánægð með að ég skuli vera í vondu skapi. Þau láta eins og þau viti ekki að ég þykist sofa. Þau láta eins og ég sofi en samt mun ég vaka. Þau eru stundum svo vitlaus að hálfa væri alveg nóg.

Dæmi um það hvað þau geta verið ótrúlega úti á þekju. Ég er alltaf með bleyju alveg sama þótt að mér sé ekkert mál að pissa eða kúka. Hvers vegna setja þau ekki bara bleyju á mig þegar ég þarf að pissa eða kúka. Ég skil ekki að maður þurfi að þrauka með bleyju í marga klukkutíma bara til þess að pissa að lokum smávegis í hana. Hefði ekki verið betra fyrir mig að fá hana rétt fyrir pissið? Jú auðvitað! En af hverju fæ ég hana ekki rétt fyrir pissið? Af því að það er betra fyrir þau að ég hafi hana í heillangan tíma. Og hver þarf að hafa bleyjuna? Ég. Og til hverra er tekið tillit til þegar bleyjan er sett á MIG? Til þeirra.

Meira af mér. Ég er orðin rosalega góð að borða. Ég borða bara allt. Meira að segja er ég farin að borða það sem foreldrar mínir borða og einhvern veginn finnst mér það ekki eigi að vera fréttir. Af hverju hef ég ekki alltaf fengið það sama og þau. Stundum hafa þau verið að borða nautakjöt og drekka rauðvín með en ég hvað hef ég fengið? Ef ég hef ekki verið sofnuð eða ef þau hafa ekki verið búin að svæfa mig þá hef ég setið uppi með hafragraut og ef ég hef verið heppin þá fékk ég peru eða banana með. Nú er ég byrjuð að fá kjöt en ekki rauðvín enn. Ég er komin með tvær tennur og er alltaf að sýna þær. Ég er byrjuð að standa í fæturna og ég er byrjuð að skríða um allt. En best af öllu er að ég er búinn að fá kappakstursbíl eins og Flintstone er á. Ég er rosalega góð á honum. Fyrstu dagana tók ég í að stilla stólinn og setti hann upp fyrir mig. Fann út loftstreymið ofan og neðan á bílinn og svo þurfti náttúrulega að athuga hvort hann væri yfirstýrður eða undirstýrður. Þegar þetta var yfirstaðið þá fór ég í fyrstu tímatökuna.

Fleiri fréttir seinna og á síðu 360 á textavarpinu.

Tinna


:: Unknown 06:15 [+] ::
...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?