|
:: Friday, September 26, 2003 ::
Sæl verið þið að nýju. Nú get ég uppfært mig örlítið því að ég var í skoðun hjá lækninum. Nú er ég orðin alveg hreint ótrúlega þung, eða rúmlega 7 kíló þannig að megrunin er hreinlega ekki að virka. Ég er kominn á þennan þarna Atkins kúr og reyni að forðast kolvetnin en það bara gengur hægt. Í fyrsta lagi finnst mér svo gaman og gott að borða (alveg eins og ég segi ekki hver) og í öðru lagi þá ræð ég sjaldnast hvað ég borða því að foreldrar mínir þykjast ráða öllu á þessu blessaða heimili. Það er sama hvað ég sting upp á að sé í matinn það er ekkert hlustað á mann bara svarað á einhverju óskiljanlegu hrognamáli dodo dúllan mín hvað þú ert dugleg að tala og svo er ekkert mark tekið á því sem ég segi... Ef þetta er lýðræði þá er nú flest lýðræði.
Ég hef líka lengst dáldið og er orðin 66 cm á hæðina. Þetta er nú annað sem ég hef áhyggjur af. Hvað ef ég hætti kannski aldrei að stækka. Þá er þetta nú eitthvað til að hafa áhyggjur af. Ég er núna 8 mánaða og er búin að stækka um 18 cm. Það gera 9 cm á 4 mánuðum og því stækka ég um 27 cm á ári. Eftir 10 ár þ.e.a.s. þegar ég verð 10 ára þá verð ég orðin rúmlega 3 metrar eða 27cm x10 +48 eða 3 metrar og 18 cm. Pæliði í því. Og fólki finnst bara gott að ég stækki svona mikið. Pabbi er 30+ og er eitthvað 150 cm en þegar ég verð 30 ára þá verð ég 8 metrar og 58 centimetrar eða eins og góð blokk á hæð. Ég hef því nokkuð góða ástæðu til að hafa áhyggjur. Þessi stækkun hræðir mig svolítið. Ég verð nú væntanlega ekki í vandræðum með að setja met í stangarstökki og hástökki en það vegur nú ekki alveg upp áhyggjurnar af fatnaði, húsnæði og fleiru sem gerir ráð fyrir að fólk sé innan við 2 metrar á hæð. Ég vona að þessi endalausa stækkun á manni verði ekki endalaus.
Að öðru. Önnur tönn er komin í ljós þannig að ég get núna bitið pabba og mömmu tvisvar sinnum fastar heldur en áður. Ég get líka gripið fastar í hárið hjá þeim og tekið alveg handarfylli af hári, reyndar ekki alveg handarfylli þegar ég næ í hárið á pabba því að það er ekki það mikið á honum nema náttúrulega þegar ég næ í bringuhárið á honum en þá verður hann alveg tjúllípúllí vitlaus og þá er gaman. Annars er ég farin að skríða um allt á maganum og rassinum og kemst eiginlega allt sem ég vil komast. Ég var t.d. að stilla videoið í dag og aðeins laga það til. Ég ætlaði að skoða aðeins inn í tækið en þá náði pabbi mér og bannaði mér það, enda yrði hann sjálfsagt rekinn út ef ég gæti sýnt mömmu að ég get gert allt sem hann gerir á heimilinu og hann er alveg óþarfur. Ég get t.d. alveg skúrað og moppað bara með því að renna mér á maganum. Fyrst slefa ég örlítið á peysuna mína og fer svo af stað. Þegar peysan er orðin skítug þá skiptir mamma um peysu og ég fer seinni umferðina. Í uppvaskið er ég fín. Ég bara læt diskana pompa í vaskinn og svo þarf ekkert að þrífa þá. Ég er líka góð í rafmagninu því að ég naga alltaf fyrst skrúfjárnið þannig að það er vel blautt þegar ég rek það inn í vírana og svo verður alltaf myrkur þannig að það þarf ekkert að laga meira þann daginn.
En auðvitað verður pabbi að vera heima, þó að við mamma gerum öll heimilisverkin. Hann þarf náttúrulega að vera á fjarstýringunni og skipta um sjónvarpsstöðvar og horfa á íþróttirnar og hann þarf að vinna inn pening handa mér á meðan mamma er heima.
Mamma og ég gerum eiginlega allt annað.
Það er eins gott að pabbi komist ekki í þessa dagbók. Þið skrifið svo í gestabókina og ég treysti ykkur til að segja pabba ekki frá þessu....
Heyrumst seinna, verð að þjóta, pabbi er að koma
:: Unknown 13:11 [+] ::
...
|