:: Tinna Huld ::

Dagb?k Tinnu Huldar
:: welcome to Tinna Huld :: bloghome | contact ::
[::..archive..::]
[::..recommended..::]
:: gestabókin [>]
:: mogginn [>]
:: plastic [>]
:: Bibbi [>]

:: Thursday, July 17, 2003 ::

Hæ aftur,

Í gær var afmælið hjá mömmu og ég gaf henni hálsmen sem ég valdi sjálf í Klassík, búð á Egilsstöðum. Pabbi hélt bara á mér og ég rótaði í sýningarskáp þangað til að ég hélt á einu hálsmeni. Það var ansi flott valið hjá mér. Ég fékk hvorki kjúkling né köku á afmælisdaginn en í staðinn náði ég að bíta í nefið á pabba og ég held að hann gefi mér frekar köku næst þegar boðið verður upp á slíkt í stað þess að verða bitinn aftur. Ég beit hressilega í nefið á honum og hló svo ægilega að svipnum á honum. Hann sagði að þetta væri hrossahlátur en mér er alveg sama þetta var svo fyndið hjá mér.

Jæja bless aftur og vonandi verð ég dugleg að skrifa áfram.
:: Unknown 00:21 [+] ::
...
:: Wednesday, July 16, 2003 ::
Halló,

Ég er komin úr fyrsta ferðalaginu mínu hringinn í kringum landið. Þetta var rosalega skemmtileg ferð þar sem ég hitti fullt af fólki og þurfti því ekki að horfa eingöngu á mömmu og pabba eins og alla hina dagana.

Við byrjuðum fimmtudaginn 3.júlí og fórum þá á Akureyri. Pabbi var að fara að keppa í fótbolta á pollamóti Þórs en hann heldur enn að hann geti orðið atvinnumaður í fótbolta og heldur ekki bara að hann sé góður heldur bestur. Ha,ha. Pabbi byrjaði að spila á föstudeginum 4. júlí á meðan ég svaf og svo spilaði hann aftur á meðan ég fékk mér hádegislúr og svo spilaði hann um það leyti sem ég fékk mér síðdegisblund og lokaleikinn þennan dag spilaði hann eftir að ég var sofnuð þannig að ég þurfti ekki að horfa upp á þá hörmung að sjá hann spila fótbolta, hjúkk. Á laugardeginum spilaði pabbi svo í útsláttarkeppni og mamma og ég reiknuðum með að hann yrði úr eftir fyrsta leik og þar með yrðu draumar hans um atvinnumennsku fyrir bí loksins en nei. Pabbi og félagar unnu Í.A. í vítaspyrnukeppni og komust áfram. Það var nú ljóta óheppnin því að allt benti til þess að ég yrði vakandi þegar sá leikur yrði spilaður. En ekki voru öll kurl komin til grafar því að amma Soffía var komin á staðinn og var að passa mig þegar leikurinn hófst. Hún var eitthvað að bardúsa áður en leikurinn hófst og á meðan setti dómarinn pabbalið í blá vesti í stað hvítu búninganna og þegar amma leit upp aftur hélt hún að pabbalið hefði farið eitthvert annað að spila því að það var komið blátt lið í stað hvíta liðsins. Ég fór því í gönguferð með ömmu að leita að pabba í stað þess að kveljast yfir knattspyrnuhæfileikum aldraðra. Nú ekki var allt búið enn því að enn vann pabbalið - ég var þarna farin að halda að hann væri alltaf út af því að liðinu gekk svo vel. Pabbi var nú kominn í 8 liða úrslit og nú leit út fyrir að ég myndi horfa á leikinn og ég var orðin nokkuð spennt að sjá kallinn spila fótbolta en miðað við frásagnir hans stóðust fáir honum snúning ef þá nokkur. Mamma hélt hins vegar að ég væri þreytt því að ég var svo spennt að hún tók til við að reyna að svæfa mig á meðan leikurinn var og sá ég því ekki þann leikinn. Nú skemmst er frá að segja að pabbalið vann eina ferðina enn og var nú kominn í 4ra liða úrslit. Ég komst ekki á leikinn því að ég mamma og amma fórum á Glerártorg að skoða föt á mig. Pabbalið vann og var komin í úrslitaleikinn. Þetta var alveg magnað. Nú skyldi ég horfa á hann. Úrslitaleikurinn hófst um fjögur um daginn og þá var ég orðin svo spennt að ég sofnaði. Pabbalið tapaði reyndar leiknum því að hann var orðinn svo þreyttur sagði hann. Ég held að hann hafi bara verið svo þreyttur út af því að hann var alltaf að endursýna leikinn fyrir okkur mömmu og ömmu því við sáum aldrei neitt. Svo sagði hann svo mikið frá að hann hlaut að vera þreyttur.

Við vorum á Akureyri fram á mánudag og fór ég í mína fyrstu sundferð á sunnudeginum 6.júlí. Við fórum í heita pottinn í Akureyrarlaug og á mánudeginum fórum við í innilaugina þar. Það var alveg rosalegt fjör í sundi. Ég held meira að segja að í annarri ferðinni hafi ég verið orðin nokkuð vel sjálfbjarga. Pabbi er íþróttakennari og hann var sko búinn að kenna mér bæði baksund og bringusund þannig að ég hefði ekkert drukknað ef ég hefði fengið að synda. Þau bara treystu mér ekki til að synda sjálfri.

Frá Akureyri fórum við á Blönduós og þar fór ég á kaffihús með mömmu, ömmu, pabba og Týru en ég var nú búin að gleyma henni. Týra var með okkur á Akureyri og pabbi dró hana með sér á alla leikina sína og greyið Týra komst ekkert frá og þurfti að skammast sín fyrir pabba allan tímann á Akureyri. Á Blönduósi var fínt, við lágum í sólbaði og fórum í gönguferðir. Gönguferðirnar voru þó flestar farnar til að svæfa mig því að mig langaði bara ekkert að fara að sofa. Á tjaldstæðinu var fjör og ég vildi frekar vera í fjörinu heldur en að vera steinsofandi. Maður á eftir að sofa nógu mikið um ævina þó að maður sofi ekki stanslaust þegar maður er á besta aldri 5 og hálfs mánaða.

Frá Blönduósi fórum við eftir tvær nætur eða miðvikudaginn 9.júlí. Við keyrðum alla leið til Reykjavíkur og ég var nokkuð góð á leiðinni. Í Reykjavík vorum við í fjórar nætur og gistum hjá Fella franda sem er pabbi Soffíu guðmóður minnar en hún lánaði okkur herbergið sitt eins og venjulega. ÉG og hún erum frábærar vinkonur. Í Reykjavík hittum við fullt af fólki eins og Afa Didda og ömmu Láru og Ömmu Soffíu og afa Jóa. Ég á nefnilega 3 afa og 3 ömmur. Við hittum einnig vini hennar mömmu Magneu, Arnar og Eyþór, Möggu, Begga og Ingu og Árna bróðir hennar, Þóru konuna hans og Birgittu frænku. Við heimsóttum Gumma, Valdísi, Arnar og Sigurjón vini pabba. Hauk, Olgu, Mekkin og Elvar. Einnig heimsóttum við Sólveigu og Þorsein og Þorbjörn son þeirra. Við fórum til Gunna Magg og Láru, og Hrefnu. Þetta var sem sagt ein heljarinnar heimsóknarreisa og verður bið á því að ég heimsæki svona marga aftur. Pabbi borðar nefnilega svo mikið þegar það er allt ókeypis og þyngist bara. Ég hef því sett hann í smá aðhald með því að harðneita að fara í fleiri svona heimsóknir í bili. Í Reykjavík var eiginlega bara hávaði fyrir utan heimsóknirnar og ég veit ekki hvort að ég nenni þangað aftur. Ég fór eiginlega bara til að komast til læknis og þar sem að nú er allt í lagi með hjartað mitt þá þarf ég ekki að fara aftur til hans. Ég er útskrifuð frá hjartalækninum og er nokkuð feginn þó svo að hann hafi verið alveg frábær.

Við héldum áleiðis heim á sunnudaginn 13.júlí og keyrðum í rigningu alla leið í Skaftafell með stuttum stoppum hér og þar en þó helst í grenjandi "útlendri" rigningu á Kirkjubæjarklaustri þar sem við keyptum í matinn og fengum okkur kaffi á Systrakaffi en mömmu finnst Sviss mokka þar besta kaffi í heimi. Við ókum svo enn í rigningu í Skaftafell og tjölduðum í rigningu, grilluðum í rigningu og sváfum í rigningu þó ekki rigndi inni í tjaldvagninum okkar. Það rigndi svo mikið að mamma hélt að það væri að koma annað Syndaflóð og var að reyna að fá pabba sem var steinsofandi til að rjúka upp í skóginn í hlíðinni fyrir ofan tjaldið og smíða örk. Pabbi velti sér nú bara á hina hliðina og sagðist vera með kút og kork og hélt áfram að hrjóta.

Eftir ansi vætusama nótt þá kom ágætis veður um morguninn og við náðum að þurrka tjaldvagninn. Við héldum því áfram ferð okkar heim um hádegið og er ekkert að frétta fyrr en hingað var komið um 17:30. Þannig var nú fyrsti hringurinn minn í stórum dráttum.

Gestabókin munið. hehe
:: Unknown 08:54 [+] ::
...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?