|
:: Monday, April 28, 2003 ::
Hæ aftur, var ekkert smá hress í morgun og fór að spjalla við mömmu og pabba klukkan 6. Þau voru að vísu ekki vakandi þegar ég byrjaði að tala við þau en einhverra hluta vegna þá voru þau vakandi þegar ég hætti að tala við þau og ákvað að fara að sofa aftur en þá var klukkan hálf átta og pabbi átti að vera farinn á fætur. Ég held að þetta sé besti tíminn til að tala við þau bæði því þá er pabbi örugglega heima, nema hann sé í Reykjavík, og þau eru sko örugglega til í að tala við mig. Það er svo gaman að spjalla á nóttinni.
:: Unknown 01:29 [+] ::
...
:: Sunday, April 27, 2003 ::
Halló allir aðdáendur,
Nú er liðið ansi langt síðan ég skrifaði síðast hér í dagbókina. Ég hef verið hálf slæm í fingrunum.(léleg afsökun ég veit það). Það hefur þó ekki liðið mánuður á milli og rétt slapp ég fyrir horn. Ég skal reyna að vera duglegri að koma hérna inn og skrifa. En best að hætta þessum afsökunum og skrifa eitthvað af viti enda af nógu af taka (þ.e.a.s. af nógu viti)
Ég hélt upp á afmælið hans pabba 12.apríl og gaf honum páskaegg í afmælisgjöf sem ég hélt að ég mætti éta sjálf en nei því var nú ekki að heilsa. Hann hesthúsaði allt páskaeggið og mamma rétt náði að nappa smá súkkulaði en ég,,,ég fékk ekki neitt og það þrátt fyrir að ég næði mér rosalega vel á strik í spjalli um morguninn en ég talaði við mömmu og pabba í a.m.k. klukkutíma þennan morgun sem var það mesta fram að þessum degi. Þetta var mest svona spjall um daginn og veginn en þó aðallega um veginn því að mér finnst vegurinn heim að húsinu okkar frekar ósléttur og oft er ég með æluna í hálsinum þegar gengið er malarveginn frá skólanum. Mamma og pabbi föttuðu þó ekki að ég væri að kvarta. Þau héldu að ég væri að syngja "hver vegur að heiman er vegurinn heim þó hann sé ósléttur". En auðvitað var ég ekki að syngja þetta. Ég er búin að fara tvisvar í heimsókn á kosningaskrifstofu Sjálfsstæðisflokksins og fá barmmerki og blöðru. Ég ætla sko að kjósa D-listann. Að vísu má ég ekki kjósa fyrr en eftir 18 ár en ég ætla samt að reyna núna. Mamma má nefnilega örugglega halda á mér inn í kjörklefann og þar set ég bara miða með x-d í boxið. Pabbi er nefnilega búinn að kenna mér að svindla í kosningunum. hehe.
Pabbi er reyndar aldrei heima. Hann fór til Reykjavíkur í fermingu um páskana en ég og mamma fórum í sveitina til ömmu og Soffíu frænku. Það var rosalega gaman en ég var nú samt ekkert mjög mikið að sýna það. Ég vildi náttúrulega fá pabba líka í sveitina og orgaði eins og ég gat til Reykjavíkur til að fá hann heim. Það er nú samt rosalega gott að vera hjá mömmu og ömmu. Það er allt gert fyrir mig, bara ef ég öskra nógu hátt. Pabbi hefur líklega heyrt í mér því að hann kom norður í sveitina daginn fyrir páska. Ég hélt að hann hefði saknað mín og mömmu svona ægilega mikið en svo fattaði ég. Mamma átti nefnilega páskaegg og pabbi var búinn með sitt. Hann át svo mömmu egg og fór aftur til Reykjavíkur. Ég vildi sko ekki fá hann aftur í sveitina bara til að borða allt súkkulaðið og ég fékk ekkert. Pabbi er algjört matargat. Mamma er miklu flottari. Ég vil sko vera eins og hún.
Ég er alveg hætt að kúka á hverjum degi. Það er algjör óþarfi. Ég kúka bara núna á vikufresti eða 10 daga fresti og get sko alveg farið á þjóðhátíðina í Vestmannaeyjum þess vegna. Ég tek svo bara eitt rosa skot í lok kúktímans og það fer út um allt. Ég setti nýtt met á föstudaginn þann 24.apríl. Þá kúkaði ég svo stórt að það fór upp á bak og niður á hæl, út úr fötunum og út um allt. Þetta var rosalegt. Lyktin var líka smágóð. Pabbi þarf ekki að kaupa sinnep næstu árin eftir þetta.
Ég þarf að fara að setja myndir inn á netið því að ég er orðin miklu stærri og sætari en síðast. Vonandi verður það bráðlega. Ég ætla að fara að hætta núna en ég kem aftur bráðlega með fleiri fréttir, nýjar og gamlar.
Munið gestabókina
:: Unknown 04:14 [+] ::
...
|