|
:: Saturday, March 29, 2003 ::
Góðan daginn... Nú er orðið ansi langt frá því að ég skrifaði síðast. Ég hef verið eitthvað löt við að skrifa hérna í dagbókina en það eldist vonandi af mér.
Það er nú reyndar ekki eins og eitthvað mikið hafi gerst síðan síðast en þó eitthvað.
Ég fór á framboðsfund hjá Framsóknarflokknum í dag og hlustaði á Valgerði og Jón Kristjánsson en steinsofnaði áður en þau byrjuðu og ákvað því að kjósa eitthvað annað. Ef ég vil sofna þá geri ég bara eins og pabbi og horfi á fótbolta. Ég og pabbi horfðum á Ísland spila við Skotland í dag og tapa og við steinsváfum bæði yfir leiknum. Ég er nú samt byrjuð að tala aðeins meira og reyndi að lýsa leiknum fyrir pabba en hann bara hraut þannig að ég sofnaði frekar en að hlusta á hroturnar í honum.
Baráttumál mín eiga ekki lengur hug minn allan því að ég fæ engu framgengt. Til dæmis eru enn engir gluggar í vagninum mínum, ég er böðuð í vaskinum (vöskuð upp) í stað þess að fá að fara í sturtu, fæ ekki að fara í skóla á daginn og fæ ekki útborgað um mánaðamót eins og annað fólk. Ég hef því ákveðið að sofa bara og láta stjana við mig.
Ég reyndi að herma eftir pabba um daginn og komst að því að ég er miklu betri en hann. Hann sagði mér sögur um það þegar hann og vinir hans fóru eitthvað um verslunarmannahelgar og ákváðu að kúka ekkert frá föstudegi til mánudags frekar en að nota ógeðslega útikamra. Ég ákvað að prófa að halda í mér og ég gat það í átta daga frá þriðjudegi og heila viku fram á miðvikudag í næstu á eftir. Þið hefðuð átt að sjá það sem kom þá, það var nú frekar ógeðslegt og mikið af þessu ógeðslega. Nú er það ákveðið að ég fæ að fara eitthvað um verslunarmannahelgina því að ég get komið mér upp svona kúkþreki.
Um daginn fór mamma með mig í nudd í Fellabæ á mömmumorgni. Það var kona sem kenndi mömmu að nudda mig og það er alveg frábært. Mamma er líka svo góð að nudda, langbesti nuddarinn í heiminum. Hún setur á mig rosalega fína olíu og svo makar hún henni um mig og strýkur mér þannig að þreyta og pirringur hverfur eins og dögg fyrir sólu. Þetta er æðislegt. Svo kemur pabbi og þjösnast með mig eins og fíll að halda á snjókorni. Þetta getur varla verið meiri munur. Hann er að reyna sitt besta en hann er stundum bara svo mikill klaufi með mig þegar hann er að reyna að vera góður.
Snærún, vinkona mömmu, og Anna Guðlaug dóttir hennar komu í heimsókn til mín um daginn. Það var rosalega gaman. Þau gáfu mér kjól og bol. Ég var búin að hjálpa mömmu að baka þannig að við gáfum þeim köku og ís. Maður verður að vera góður við gesti.
Munið eftir gestabókinni
:: Unknown 10:00 [+] ::
...
|