|
:: Thursday, March 20, 2003 ::
Fimmtudagur í dag. Ég svaf ægilega vel í nótt. Pabbi sagði mér í morgun að hann hefði þurft að reyna að hlusta eftir því hvort ég andaði ekki örugglega. En ekki hvað. Heldur hann að ég hætti að anda á nóttinni. Hvað er eiginlega málið. Ég hrýt bara ekki eins og hann og því heyrir hann síður í mér en ég í honum.
Annars er það helst að frétta að ég fór að láta vega mig og meta í gær og er orðin svo mikið sem 56 cm á lengd og er að ná mömmu og pabba. Þau eru nú ekki mikið stærri. En slæmu fréttirnar eru þær að ég held áfram að þyngjast. Nú er ég orðin 4720 grömm í stað 3520 við fæðingu. Ég hef sem sagt þyngst um 1,2 kíló. Einhver myndi nú segja að það væri full mikið fyrir kvenlegar línur mínar og er ég alveg sammála. Ég fæ bara engu um þetta að ráða. Ég þarf að drekka rjómablandna mjólk í öll mál og fæ lítinn hljómgrunn þegar ég bið um undanrennu stöku sinnum. Þetta er nú alveg óhæft enda er ég næstum orðin sjálfráða. Ég verð nú líka að segja að gluggagerð á vagninn minn hefur dregist úr hófi svo ekki sé meira sagt. Í blíðviðrinu hér fyrir austan upp á síðkastið hef ég farið reglulega út með mömmu og stundum tekur pabbi líka í vagninn en ég sé bara ekki nokkurn skapaðan hlut hvert við förum, hverja við hittum og hvernig landið liggur yfirleitt. Ég vona að eitthvað fari að gerast í þessum málum.
Ég fékk svakalegt sár í eyrað í gær og það blæddi og blæddi. Mamma og pabbi vita ekki hvernig ég fékk þetta sár, annað hvort rispaði ég á mér eyrað eða læknirinn sem skoðaði eyrað mitt stakk einhverju í það þannig að úr blæddi. Þetta var frekar vont og ég bað þau um að panta þyrlu landhelgisgæslunnar en þau vildu ekki gera það. Ég bað þá um sjúkraflug en þau notuðu eyrnarpinna og kalt vatn og létu þar við sitja. Maður ræður bara engu lengur um nokkurn skapaðan hlut. Þetta á að vera frjálst land en ég veit betur, miklu betur.
Svo er það náttúrulega gestabókin
:: Unknown 02:53 [+] ::
...
:: Monday, March 17, 2003 ::
Mánudagur......
Af hverju var mánudagurinn fundinn upp. Hann er upphaf alls ills. Þá verður pabbi að fara í vinnuna og við mamma eftir einar heima. Það er ekki það að það sé slæmt að vera með mömmu en ég vil bara hafa þau bæði og Týru. Mánudagurinn þýðir líka að ég verð að fara fyrr að sofa því að mamma og pabbi gera það, eins og það er skrítið að allir verði að fara að sofa á sama tíma, a.m.k. verð ég alltaf að fara að sofa þegar þau fara en annað þeirra má stundum vera lengur frammi en ég. Þetta er náttúrulega brot á jafnræðisreglu en það eru engin hagsmunasamtök til að taka á þessu og því verð ég bara að kyngja þessu. Þegar ég eignast barn þá má það sko vaka eins og það vill og horfa á þær myndir og þætti í sjónvarpinu sem það vill. Ég ætla að vera góð mamma en ekki að skipa barninu að fara að sofa áður en allt þetta besta í sjónvarpinu byrjar. Til hvers að hafa þætti í sjónvarpinu ef allir fara snemma að sofa?
Ég vakti í nótt meira en venjulega. Ég gat bara ekki sofið og ekki gat ég farið framúr þannig að ég ákvað að halda mömmu og pabba líka vakandi og það var bara nokkuð gaman. Þau voru kannski ekkert alveg ánægð en ég var það. Ég gerði í því að umla og stynja og góla annað slagið þannig að þau voru alltaf alveg að sofna þegar ég byrjaði aftur. Þið hefðuð átt að sjá pabba þegar hann fór fram í nótt, sá var ekki hress og kátur.. hehehe.
Ég fór í ferðalag í gær inn að Hafursá þar sem Keli og Anna Gerður foreldrar Hjalta vinar pabba eru að gera upp óðalið sitt. Þau voru skemmtileg og gáfu mér rosaflottan hundagalla og handklæði. Þetta var reyndar dáldið langt eða 25 mínútur og ég sofnaði á leiðinni. Það voru hvort eð er bara tré þarna og öll eins. Ég hlýt að sjá þetta seinna.
Jæja vonandi verða mánudagar lagðir niður því að þá þarf enginn að fara í vinnu því að vinnuvikan byrjar á mánudögum.
Gestabókin þið vitið.. skrifa allt sem ykkur dettur í hug til að hrósa mér..
:: Unknown 02:31 [+] ::
...
|