:: Tinna Huld ::

Dagb?k Tinnu Huldar
:: welcome to Tinna Huld :: bloghome | contact ::
[::..archive..::]
[::..recommended..::]
:: gestabókin [>]
:: mogginn [>]
:: plastic [>]
:: Bibbi [>]

:: Tuesday, March 04, 2003 ::

Jæja, nú er enn ein helgin horfin á braut minninganna. Ég gerði nú mest lítið þessa helgina sem leið fyrirhafnarlítið fyrir mig en var aðeins strembnari fyrir mömmu og pabba, sérstaklega mömmu. Ég fékk nefnilega eitthvað í magann og gætti vandlega að því að láta mömmu og pabba vita af því. Þetta var eitthvað loft sem ég gat ómögulega prumpað út. Pabbi sagði að þetta væri nú eðlilegt enda er ég víst 1/4 Þingeyingur og það er víst í eðli Þingeyinga að vera uppfullir að lofti, a.m.k. segir pabbi það. Ég held nú að þetta sé út af því að um daginn fór ég á mitt fyrsta fyllerí. Þannig er mál með vexti að ég fékk dropa eins og hinir alkarnir. Ég taldi sjálfri mér trú um að þetta væru kardímommudropar og svolgraði þá í mig og steinsofnaði enda á maður víst alltaf að sofna vel á sínu fyrsta fylleríi. Ég hélt áfram með dropana í stórum stíl og datt reglulega út af. Svo var náttúrulega komið að þynnkunni og hún kom á sunnudaginn en sá dagur er víst afskaplega hentugur til að jafna sig eftir of stóran skammt af dropum. Ég var því alveg aðframkomin á sunnudag og mánudag þannig að fyrsta kenderíið var orðið fullkomið. Dropar föstudag og laugardag og þreyta og pirringur á sunnudag og mánudag. Svo kom náttúrulega það versta. Þetta voru víst ekki kardímommudropar eftir allt saman heldur einhverjir heilsudropar og allt mitt djamm fór fyrir lítið. Það var bara gert grín að mér. Ég hafði sem sagt ekki farið á mitt fyrsta alvörufyllerí heldur á mitt fyrsta ímyndunarfyllerí. Það er líka kannski ágætt að það sé yfirstaðið.
Annars er allt þokkalegt að frétta af mér. Ljósmóðirin kom í morgun og hafði ég enn þyngst. Þessi ósköp ætla engan enda að taka. Ég var búin að þyngjast um 400grömm sem þýða ca. 40 grömm á dag. Sem er náttúrulega 39 grömmum of mikið. Ég hef greinilega aðeins slakað á kúrnum sem ég var komin á en það verður tekið á þessu á næstunni. Ég er orðin 5 vikna síðan á sunnudaginn og fer í skoðun eftir næstu helgi og vonandi kemur vigtin betur út þá en að undanförnu. Ég vona svo sannarlega að ég þurfi ekki að fara að punga út fyrir nýjum fötum vegna þess að ég er orðin of sver fyrir fínu fötin sem ég hef fengið að undanförnu og núna síðast fékk ég þennan líka fína æfingargalla frá Svölu vinkonu mömmu og manninum hennar og börnum. Ansi hreint fínt að geta átt æfingargalla til skipanna þegar maður fer að koma sveitt inn eftir útihlaupin í skólanum.
Talandi um skóla þá fer ég að vera smá undrandi á því af hverju ég fer ekki í skólann. Ég er búin að missa svo mikið úr að ég sé ekki alveg fram á að ná samræmdu prófunum sem verða bráðlega. Ég skil þetta nú ekki alveg. Svo er líka það að punktakerfi skólans sem tekur á svona skrópi veldur því að loksins þegar ég fæ að mæta í skólann þarf ég að byrja á að mæta í úrbótavinnu. Sjálfsagt eini nemandi landsins sem nær að byrja á úrbótavinnu.

Minni á gestabókina og verið dugleg að skrifa.
:: Unknown 06:43 [+] ::
...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?