|
:: Friday, February 28, 2003 ::
Hæ,
Það getur borgað sig að kvarta. Ég hef undanfarið fengið að fara út trekk í trekk. Þetta er allt annað líf heldur en að hanga inni yfir ekki neinu. Nú er lag að kvarta aftur og ligg ég undir feldi að ákveða hvaða atriði ég vil breyta næst mér til framdráttar. Það er ýmislegt sem kemur til greina. Það er náttúrulega að fá glugga á vagninn, það er að fá pabba til að hætta að syngja, mig langar í mitt eigið herbergi því mamma og pabbi hrjóta svo hátt að ég vakna alltaf á nóttinni. Það er bara enginn svefnfriður fyrir þeim. Af hverju getur fullorðið fólk ekki sofið þegjandi alla nóttina, maður er gjörsamlega úrvinda á morgnana. Einnig kemur til greina að krefjast þess að fá eitthvað harðara undir tönn að borða en endalausa mjólk. Það mætti halda að ég væri kálfur. Ég vil líka gjarnan smakka eitthvað af rauðvíninu hans pabba. Það síðasta sem mér dettur í hug að krefjast næst er að fá að fara í skólann reglulega.
Ég fór nefnilega í skólann í dag í fyrsta skipti. Ég rétt kíkti inn til að hitta kennarann sem á að kenna mér þegar ég loksins fæ að fara. Það var bara gaman að hitta kennarana, að ég held því að ég sofnaði. Ég sá reyndar ekki neinn sem verður með mér í bekk en það kemur allt saman. Ég hlakka rosalega til að byrja að mæta reglulega.
Ég er að hugsa um að láta þetta duga í bili en kem og segi ykkur hvað ég vil næst um leið og ég er búin að ákveða mig.
:: Unknown 10:32 [+] ::
...
:: Wednesday, February 26, 2003 ::
Nú er stuð, stuð, stuð, feikimikið stuð. Út um allt, út um allt, allt allt eða næstum því. Það var rosa stuð hjá mér í gærkveldi en ég gat ómögulega fengið mömmu og pabba með í stuðið. Þau voru ansi hreint ekki til í stuðdansleik í gær. Ég varð náttúrulega alveg tjúllí púllí og harðneitaði að fara að sofa. Ég fékk það í gegn að hlusta á Sálina í nokkra klukkutíma áður en ég færi í bólið. Það var rosafjör. Ég dansaði um gólfin í húsinu og söng með. Það var ansi hreint gaman nema ef þú spyrð foreldrana mína.
Í gær fékk ég fullt af fólki í heimsókn og það var sko fólk á mínu reki því að þau voru líka að byrja í skóla. Þau eru reyndar á fyrsta ári í Menntaskólanum en þetta var gamli 10. bekkurinn sem pabbi kenndi. Þau sem komu voru: Sigrún, Anton, Adam, Júnía, Margrét, Jónína, Hjálmar, Hildur, Sissó, Steinar, Markús og Heiðrún. Það var rosalegt fjör hjá þeim. Þau spjölluðu og átu kökur og höfðu það fínt. Ég var náttúrulega miðpunkturinn en mér fannst nú óþarfi hjá pabba að fara að segja þeim söguna um það þegar ég setti kúkametið og þau að borða. Hann bara kann sig ekki. Það sem gerðist var að mamma var að skipta á mér en samt var hún ekki að skipta á mér á svona skiptimarkaði heldur var hún að skipta um bleyju á mér. Ég lagðist sem sagt á skiptiborðið og beið róleg þangað til að bleyjan var farin og þá safnaði ég lofti og reyndi við nýtt með í kúkakasti með rassinum. Mamma vissi ekki af því að ég væri að keppa í þessu og gætti ekki að sér og lenti í miðjum kúknum. Sem betur fer lenti fastasta skotið ekki á henni og náði ég því metinu sem er núna orðið 1,75 metrar frá skiptiborðinu. Slóðin lá frá skiptiborðinu, framhjá eldhúsdyrunum og alveg að kommóðunni hennar mömmu. Ég stefni að því að ná kommóðunni í næstu tilraun. Þegar meðvindur var mældur var hann langt undir skekkjumörkum og telst því metið algjörlega löglegt. Ég reikna þó með að slá það næst.
Eitt annað sem ég verð að segja frá er Týra systir mín. Hún er svo góð við mig að ég veit ekki hvernig ég á að endurgjalda það. Hún sleikir mig í framan þegar hún nær til mín til að sýna að henni þykir vænt um mig. Hún passar að mamma og pabbi gleymi mér ekki þegar ég kalla á þau því að hún fer og sækir þau ef ég hef kallað lengi og okkur báðum fer að þykja nóg um tillitsleysið við okkur systurnar. Hún geltir eiginlega aldrei á mig og ég hlakka svo til að fara að toga í skottið á henni og klípa í eyrun hennar. Hún fattar þá að ég er að vera góð við hana eins og hún er góð við mig í dag.
Jæja ég reyni að vera dugleg að skrifa í vikunni og aftur um helgina en vitið þið hvað. Hver haldið þið að eigi mánaðar afmæli í dag.... ÉG.
Munið gestabókina mína plíssssssssss
:: Unknown 03:32 [+] ::
...
:: Sunday, February 23, 2003 ::
Enn ein helgin er að hverfa á vit minninganna. Það hefur margt drifið á daga mína frá síðasta innleggi. Í gær laugardag ákváðu mamma og pabbi að væri fyrsti formlegi brosdagurinn minn því að ég brosti víst svo fallega til þeirra um morguninn og svo meira þann daginn. Það var eins gott að þau vissu ekki af hverju ég brosti. Þannig er nefnilega mál með vexti að allan föstudaginn hvíldi ég mig og hvíldi. Svaf og svaf og tímdi varla að eyða orku í að kúka en gerði það nú samt. Jæja svo þegar ég var búin að hvíla mig allan daginn og svolítið vel um kvöldið og mamma og pabbi héldu að ég væri nú loksins orðin kvöldsvæf þá fór nú að aukast adrenalínið hjá mér og það náði nokkurn veginn hámarki um 03:00 um nóttina og tók ég þá til við að syngja eins fallega og ég gat en mömmu leist nú ekki betur á það en hún reyndi að rugga mér aftur í svefn. Ég lét það eins og vind um eyrun þjóta og hélt áfram að kyrja minn söng sem var víst ekki íkja fagur, sjálfsagt eitthvað sem ég hef frá pabba. Tíminn leið og mamma lét mig í hendur pabba um 04:20 og hann sat og reyndi að þagga niður í söngnum til klukkan 06:30. Þá var nú tónlistarprógrammið uppurið og ég kunni ekki fleiri lög. Ég hætti því að syngja en hét því að reyna að læra fleiri lög fyrir næstu tónleika.
Á laugardeginum komu Soffía systir mömmu, Jónas maðurinn hennar og Björgvin Búi, Bóas Ingi og Margrét Brá börnin þeirra í heimsókn til mín. Þau voru rosalega hrifin af mér og gáfu mér Puma íþróttagalla og peysu og húfu. Ég var líka rosalega góð við þau því að þau höfðu passað Týru systir á meðan ég fæddist og kannski fæ ég þau til að passa mig einhvern tíma þegar ég nenni ekki lengur að hanga með mömmu og pabba gerandi ekki neitt. Ég fór nú samt út bæði í gær og í dag í smá ferðalag en sé aldrei neitt út úr kerrunni. Ég hef því ákveðið að taka með mér skæri næst og klippa smá kíkjugat á vagninn þannig að ég sjái eitthvað hvað er þarna úti. Ég sé svo ofsalega lítið út að mér finnst alveg jafngott að sofa bara þegar ég er úti. Ég meira að segja sofnaði svo fast í dag að ég var bara skilin eftir úti í vagni steinsofandi á meðan aðrir voru inni í hlýjunni. Pæliði í foreldrum að skilja mig eftir úti alveg eins og þau gera með þvottinn. Ég var bara ekki hengd upp, það var næstum eini munurinn. Ætli þau setji mig ekki ofan í skúffu eða inn í skáp einhvern daginn þegar þau ruglast á mér og þvottinum og setja þvottinn í vögguna og svæfa hann.... Þau eru stundum svo klikkuð að ég gæti næstum trúað þeim til að gera þetta.
Ég er með einhverjar hormónabólur þessa dagana og pabbi hélt að ég myndi losna við þær ef hann klæddi mig í rauð föt. Mamma sagði að hann væri klikk. Pabbi hélt þetta út af því að í einu lagi segir: Það á að gefa börnum brauð að bíta í á jólunum; kertaljós og klæðin rauð svo komist þau úr BÓLUNUM. Pabbi hélt að það væri verið að tala um bólur. Ég held að mamma hafi rétt fyrir sér hann er stundum klikk.
Munið svo eftir gestabókinni minni. Það er alltaf verið að skrifa í hana og ég er mjög ánægð með það. Þið megið alveg skrifa oftar en einu sinni.
:: Unknown 09:55 [+] ::
...
|