:: Tinna Huld ::

Dagb?k Tinnu Huldar
:: welcome to Tinna Huld :: bloghome | contact ::
[::..archive..::]
[::..recommended..::]
:: gestabókin [>]
:: mogginn [>]
:: plastic [>]
:: Bibbi [>]

:: Friday, February 21, 2003 ::

Góðan daginn, það er nú meira veðrið úti núna. Það er víst alltof hvasst til að ég fái að fara út en ég fékk að fara út í gær með mömmu og pabba og Týru. Við gengum hring um Egilsstaði en ég veit eiginlega ekki til hvers því að ekki eru enn komnir gluggar á vagninn minn. Mér finnst líklegt að mamma og pabbi væru búin að skipta um bíl ef það væru ekki gluggar á þeirra kerru en nei ég má una mér í glugga-, útvarps- og miðstöðvarlausri kerru þegar ég á að fara að rúnta. Þetta er hvorki sniðugt né löglegt og hvað með siðferðið þetta eru nú spurningar sem ég ætla að senda á umboðsmann alþingis og umboðsmann barna þó svo að ég sé ekkert barn en þá er hann samt að vinna við svona eitthvað. Ég ætla að klaga mömmu og pabba fyrir að leyfa mér aldrei að sjá út. Mamma er orðin rosalega góð við mig heima og leyfir mér að hafa drekkutíma þegar ég vil og er það miklu betra heldur en að þurfa að drekka á einhverjum vissum tímum því að þá get ég verið annað hvort sofandi eða að kúka. Ég man það nú eins og gerst hafi í gær hvað ég svaf og kúkaði mikið þegar ég var lítil. Ég gerði næstum ekki neitt annað og get nú ekki annað en brosað að því í dag því að nú er ég hætt að sofa jafn mikið á daginn en kúka samt alveg jafn mikið ef ekki meira. Í dag t.d. þá er ég næstum búin að vaka frá klukkan 10 í morgun og búin að kúka að minnsta kosti tvisvar stórt og svo eitthvað smá á milli. Ég veit samt ekki hvort ég ætli að vaka svona mikið á daginn. Það er ekkert spennandi í sjónvarpinu og mamma og pabbi eru vakandi með mér þannig að þetta fer voða lítið í taugarnar á þeim. Ég held að það sé betra að vera vakandi seint á kvöldin en best á nóttinni. Ég stefni á að vaka svolítið meira á nóttinni þegar þau vilja sofa. Þá fæ ég rosalega athygli og Týra er sofnuð og allir hugsa um mig. Það er alveg frábært.

Ég mæli svo að endingu með að allir skrifi í gestabókina og taki undir með mér með að setja glugga og útvarp í barnavagna.
:: Unknown 09:39 [+] ::
...
:: Thursday, February 20, 2003 ::
Jæja blessað veri fólkið...

Nú eru aldeilis fréttir af mér. Ég fékk að fara út í fyrsta sinn í vagninum mínum í gær og þið getið séð sönnun þess á myndum á heimasíðunni minni. Ég fór í smá ferðalag um Egilsstaði en sá ekkert út. Ég verð nú að segja að það eru ansi lélegir hönnuðir sem hanna barnavagna.. Hvar eru rúðurnar og rúðuþurrkurnar. Hvar er miðstöðin og útvarpið. Þetta er náttúrulega ekki hægt. Það verður að fara að setja málið í nefnd. Ég var keyrð um Egilsstaði en sá ekkert. Ég hefði nánast alveg eins getað verið áfram heima. Ég fór til læknis sem ætlaði að mæla hjartsláttinn hjá mér en mér fannst nú ansi mikið gert í því máli. Ég var klædd úr öllu og svo var byrjað að líma eitthvað á mig. Ég minntist þess að það er bannað að líma krakka eins og til dæmis þarna í Hafnarfirði löngu áður en ég fæddist en ég las það í öldinni okkar einhverju sinni þegar mér leiddist heima. Ég mótmælti ákaft og náði að hrista af mér plástrana og það þótt að mamma, hjúkkan og pabbi legðust á eitt með að halda mér. Ég kúkaði bara og þá losnuðu tökin því að lyktin var nú kannski ekki þess eðlis að menn væru mikið að hanga innan hennar. Ég náði að hrista þetta allt af mér og var ægilega ánægð þegar hjúkkurnar komust að því að þetta gengi ekki og þær yrðu hreinlega að láta það nægja sem þegar hafði náðst þó svo að það væri fjarri því að vera fullkomið.. ÉG VANN. Nú Týra systir mín hafði áhyggjur af því hvað væri verið að gera við mig þarna inni og var á leiðinni inn á heilsugæslustöðina þegar pabbi náði í skottið á henni og kom henni út aftur. Ég held svei mér þá að hún hafi urrað á hann en ég veit ekki.... Ég var svo keyrð beint heim eftir þessa ferð á heilsugæslustöðina. Pabbi og mamma ætluðu sko ekki að leyfa mér að vera of lengi úti í einu. Nú er það bara spurningin hvort að ég fái að fara út aftur bráðlega eða hvort að þetta verði á 3ja vikna fresti sem ég fer í 30 mínútna gönguferðir um bæinn og sé ekki neitt. Ég myndi nú vilja ganga ef þau gætu áttað sig á því en þau halda að ég sé svo lítil að ég geti ekki gengið. Jæja fyrst að þau vildu ekki leyfa mér að ganga og ekki leyfa mér að sjá út og ekki leyfa mér að vera lengur úti þá ákvað ég að reyna að hvíla mig vel fyrir kvöldið og hressast þá. Ég náði að sofa ægilega vel framundir kvölddagsskrána í sjónvarpinu og ætlaði að taka þá minn heimsfræga hressisprett en kom þá ekki einhver bráðavaktarþáttur sem var ægilega rólegur og ég steinsofnaði aftur og vaknaði ekki almennilega fyrr en klukkan 0200 um nóttina. Ég lá aðeins fyrir og spugleraði í því að gefa eftir og sofa nóttina en nei.. það má aldrei gefa neitt eftir því að þá verður vaðið yfir mann. Ég tók því til við að tvista og fékk loksins pabba fram úr til að spjalla um daginn og veginn. Hann var nú eitthvað þreytulegur greyið en ég vissi að ef hann væri vakandi nógu lengi þá myndi hann hressast. Og það gekk eftir um fjögur leytið um nóttina var hann orðinn ægilega hress og þá fór hann enn einu sinni að syngja fyrir mig og þá er nú bara ein flóttaleið ef maður fær ekki að ganga eða hlaupa og það er að sofna þannig að maður heyri ekki neitt. Þannig að ég steinsofnaði strax og hann byrjaði að syngja... Guð minn góður hvaðan fær hann þessa sönghæfileika.... Vonandi getur Kári staðsett sönggenið hennar mömmu í mér.
Í dag kom ljósmóðirin, af hverju ætli hún heiti ljósmóðir.. er hún ljóska eða er hún eins og ljós. Ef hún er eins og ljós þá ætti ég að verða ljósmóðir, þó að pabbi sé ekki sammála akkurat núna eftir nóttina hehe. En alla vega þá kom ljósmóðirin og viktaði mig. Ég er enn að þyngjast núna er ég orðin 4150 grömm. Búin að þyngjast um 150 grömm á viku eða um rúmlega 20 grömm á dag. Það er nú strax betra en 40 grömm á dag eins og síðast. Ég er að ná tökum á þessari þyngdaraukningu og verð orðin ansi góð eftir smá tíma og þá fer ég að segja þessum aukagrömmum stríð á hendur. Það verður stríð í lagi. Mamma treður svoleiðis í mig rjómanum og hlustar ekki á mig. Auðvitað er þetta ofsalega gott en þetta er bara svo FITANDI. Þegar ég var að spjalla við pabba í nótt sagði hann að ég hefði örugglega eitt frá honum og það er þessi árátta í brjóstin hennar mömmu. Ekki segja neinum frá því hann verður ofsalega vandræðalegur ef hann fréttir að ég hafi skrifað þetta í dagbókina..

Jæja nóg í bili.
Munið gestabókina
:: Unknown 04:18 [+] ::
...
:: Tuesday, February 18, 2003 ::
Jæja ég er mætt!!! :-) Svaf svo vel í nótt og í gærkvöld að ég varð bara að komast í tölvuna. Ég er reyndar ekki búin að fara út enn en mamma er alltaf að tala um það en veðrið er aldrei nógu gott :-( Ég heyrði að mamma kallaði mig grjónið sitt nokkrum sinnum og svo sá ég grjón í gær og hvað haldiði ég móðgaðist ekkert smá.. Þó að ég sé lítil þá er ég nú stærri en grjón. Ég held að hún ætti frekar að kalla mig hraðsuðuketilinn eða eitthvað því að við erum svipuð á hæð.... Ég verð nú líka að segja að ég er að fara á spítalann á morgun að athuga hjartsláttinn. Ég held að það sé eitthvað út af því að ég brenn ekki nógu miklu. Það hlýtur eiginlega að vera það því að ég fitnaði um 400 grömm á 10 dögum um daginn eða ca. 40 grömm á dag. Og þar sem að ég fæ ekki að fara út þá kemst ég ekki í ræktina til að ná þessu af mér. Ég held að foreldrar mínir séu eitthvað klikk svona eins og Rómverjarnir hans Ástríks. Þau dæla í mig mjólk og það er sko engin léttmjólk eða fjörmjólk heldur er góður skammtur af rjóma í mjólkinni minni. Svo kemur ljósmóðirin aftur á fimmtudaginn og þá skal ég... ég skal vera búin að léttast. Ég þoli ekki að fitna svona agalega. Svo er alltaf verið að taka myndir af mér og þar kemur nú greinilega í ljós hvað er að gerast... ég segi nú bara ekki meira...
Skrifið í gestabókina
:: Unknown 04:23 [+] ::
...
:: Monday, February 17, 2003 ::
Nú er kominn mánudagur í mann því helgin er liðin. Ekki skrapp ég nú á ball þessa helgina en það stendur þó allt til bóta ÞEGAR ÉG FÆ LOKSINS AÐ FARA ÚT ÚR HÚSI. Ég er orðin nokkuð góð í því að hvíla mig á daginn og vera svo eldhress á kvöldin. Mamma er ekki orðin nærri því eins góð í þessu og ég. Hún vill fara að sofa þegar ég er loksins að hressast. Hún vill náttúrulega að ég sofni á sama tíma og hún en mér finnst það nú frekar asnalegt að allir þurfi að sofa í einu og læt hana sko vita af því. Ég veit líka að bestu þættirnir í sjónvarpinu eru seinast á kvöldin. Ég er náttúrulega búin að skoða sjónvarpshandbókina margoft enda ekkert annað að gera því að EKKI FÆ ÉG AÐ FARA ÚT. Afi og amma eru farin aftur á Þórshöfn. Þau fóru í brjáluðu veðri. Ég hefði alveg viljað fara með þeim því að þá hefði ég orðið að fara út úr húsi. Ég er reyndar búin að fá nýjan fjölskyldumeðlim því að hún Týra er komin aftur til að vera. Það er alveg frábært að vera komin með systur og geta talað við einhvern annan en pabba eða mömmu sem aldrei leyfa mér neitt. En hvað haldið þið... Týra var ekki búin að vera nema í nokkrar mínútur hérna heima áður en pabbi fór með hana út að hlaupa.. Ekki fór hann með mig... nei það var ekki hægt. Ég er ekkert svekkt..eða þannig... og ekki nóg með það heldur fór hann aftur í gær með hana út og ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur þrisvar og er búinn að fara með hana einu sinni í morgun... Hvenær ætli komi röðin að mér.. Skólastjórinn hlýtur að fara að undrast um mig. Ég er ekki enn mætt í skólann, aðallega vegna þess að útgöngubannið er svo strangt á mér. Ég er farin að halda að eini möguleikinn minn á að komast út úr húsi er að hann komi og sæki mig í skólann. Ég hlakka ekkert smá til að byrja í skóla... En hann kom nú í heimsókn um helgina og ég minnist þess ekki að hann hafi rætt við mig um skólavist.. Ætli hann sé eitthvað hættur við. Ætli mamma og pabbi hafi gabbað hann til að skrá mig seinna í skóla... Jæja best að fara að athuga þessi mál.. sjáumst síðar....
Munið gestabókina
:: Unknown 06:13 [+] ::
...

This page is powered by Blogger. Isn't yours?